Samningstími og uppsögn: Uppsagnarfrestur er sex mánuðir. Við uppsögn getur leigutaki óskað eftir því að losna fyrr og er íbúðin þá auglýst laus samkvæmt óskum hans. Leigutaki er samt sem áður ábyrgur fyrir greiðslu leigu á uppsagnartíma ef ekki tekst að leigja íbúðina. Uppsögn á sér stað á ”mínum síðum”.

Skil og úttektir:  Við lok leigutímans skal leigutaki skila íbúðinni í eins ástandi og við upphaf leigu, þ.e. nýmálaðri í upphaflegum lit og vandlega þrifinni. Málun skal unnin af fagaðila ef leigutaki getur ekki unnið verkið eins vel og fagaðili. Leigutaka er frjálst að negla nagla, mála í öðrum lit og setja upp gardínur til að skapa sér heimili en allt þetta þarf að færa til fyrra horfs í lok leigutíma. Leigutaka er þó heimilt án sérstaks samþykkis að bæta við innréttingar og getur valið um að fjarlæga slíkar viðbætur í lok leigutíma og komið húsnæðinu í upphaflegt horf eða nálgast leigusala með hvort þær megi standa eftir við leigulok. Samþykki leigusali slíkt verða viðbætur eign leigusala og á leigutaki ekki rétt á sérstakri greiðslu vegna þeirra.

Úttekt fer fram við skil húsnæðis og er undirrituð af báðum aðilum. Sætti annar aðilinn sig ekki við slíka úttekt getur hann óskað eftir úttekt óháðs úttektaraðila og skiptist kostnaðurinn við úttektina þá að jöfnu milli þeirra.

Ef allt er í lagi við skilin og engar athugasemdir gerðar þá er enginn kostnaður við skilin. Hins vegar ef eitthvað þarf að laga, t.d. mála eða þrífa betur, getur heildarkostnaður verið töluverður og er breytilegur allt eftir ástandi og umgengni en samkvæmt lögum ber leigutaki óskerta ábyrgð á allri rýrnun húsnæðis. Sé rýrnun á húsnæðinu umfram það sem eðlilegt þykir og hið leigða verði ekki hæft til útleigu skal leigutaki enn fremur greiða leigu fyrir þann tíma sem tekur að koma húsnæðinu í viðeigandi og leiguhæft ástand.  

Hægt er að fá tilboð eða áætlun í kostnað þegar fólk flytur því allra jafnan þarf að mála íbúð við flutning, það er metið í úttekt.

Við uppsögn á leigu fær leigutaki afhentan gátlista í tengslum við skil og heimsókn frá starfsmanni Bjargs þar sem nánar er farið yfir hvað þarf að gera fyrir skil.