16. ágúst 2018

Staða skráninga á biðlista hjá Bjargi

Netborði 1080x360.msg.jpg

Skráning á biðlista hjá Bjargi íbúðafélagi hófst þann 15. maí sl.  Reiknað var með að einhvern tíma tæki að koma skilaboðum til félagsmanna aðildarfélaganna (ASÍ og BSRB) um þennan nýja íbúðarmöguleika og til að gæta sanngirni var ákveðið að skráningar fyrir 31. júlí færu í pott og yrði dregið í númeraröð.

Í lok dags 31. júlí sl. höfðu 818 umsækjendur skráð sig á biðlista hjá Bjargi. Dregið hefur verið í númeraröð meðal þeirra sem þá höfðu skráð sig og geta umsækjendur fundið sitt biðlistanúmer á “mínum síðum” á bjargibudafelag.is. Ein númeraröð er fyrir alla óháð íbúðartegund eða staðsetningu.

Áfram er hægt að skrá sig á biðlistann og er skráningum raðað upp í þeirri röð sem þær berast og virkjast þegar greiðsla staðfestingargjalds hefur verið innt af hendi.

Sótt er um íbúð hjá Bjargi í tveimur skrefum

Í hvert sinn sem íbúðir eru lausar til umsókna sendir Bjarg póst á alla aðila á biðlista með nánari upplýsingum.

Ef áhugi er á tiltekinni staðsetningu þarf að senda umsókn. Úthlutun hlýtur sá umsækjandi sem uppfyllir öll skilyrði um úthlutun hefur lægsta númer á biðlista og að teknu tilliti til forgangs. Sótt er um ákveðna íbúðartegund/íbúðarstærð sem hentar út frá fjölskyldustærð og í tilteknu húsi. Ekki er hægt að sækja um ákveðnar íbúðir sérstaklega.

Framkvæmdir eru hafnar á tveimur stöðum innan Reykjavíkur, í Spöng í Grafarvogi og einnig í Úlfarsárdal. Öll vinna er samkvæmt áætlun og reiknað er með opna fyrir umsóknir í fyrstu íbúðir á höfuðborgarsvæðinu nú í september og að upphaf leigu/afhending þeirra íbúða til nýrra leigutaka verði 1. júlí 2019.

Fleiri framkvæmdir eru í undirbúningi hjá félaginu víða um land en hér má sjá stöðu á uppbyggingu félagsins.