4. október 2018

Bjarg hefur byggingu á 33 leiguíbúðum við Asparskóga á Akranesi

IMG_1275.JPG

Fyrsta skóflustungan að 33 nýjum leiguíbúðum sem Bjarg íbúðafélag byggir var tekin í dag kl. 10 við Asparskóga 12, 14 og 16 á Akranesi.

Reiknað er með að afhending til leigutaka verði í tvennu lagi, 1. júní og 1. júlí 2019. Þá hefur verið gert samkomulag við Akraneskaupstað um að þeir fái til ráðstöfunar 25% íbúðanna að Asparskógum.

Modulus munu sjá um byggingu húsanna og arkitekt er Svava Björg Jónsdóttir.

Hagsýni, skynsemi og gæði eru höfð að leiðarljósi við hönnun íbúðanna til að halda leiguverði lágu og er þar m.a. horft til fermetrafjölda. Um verður að ræða 40,4 fermetra stúdíóíbúðir, 52 fermetra tveggja herbergja íbúðir, 77 fermetra þriggja herbergja íbúðir og 93 fermetra fjögurra herbergja íbúðir.

Félagið er nú þegar með tæplega 238 íbúðir í byggingu og um 430 í hönnunarferli en þegar hafa verið veitt framlög til Bjargs vegna uppbyggingar á 668 íbúðum í Reykjavík, Hafnarfirði, Akranesi, Akureyri, Þorlákshöfn og Sandgerði. Þá hefur Bjarg átt í viðræðum við fleiri sveitarfélög um uppbyggingu en félagið stefnir á uppbyggingu um 1400 leiguíbúða á næstu fjórum árum.

Bjargi er ætlað að skapa tekjulægri hópum öruggt og gott húsnæði. Íbúðirnar í Asparskógum verða því mikilvæg viðbót inn á húsnæðismarkaðinn á Akranesi.

Opið er fyrir umsóknir og skráningu á biðlista hjá Bjargi á heimasíðu félagsins, www.bjargibudafelag.is.