Fjárhagsupplýsingar Bjargs íbúðafélags hses.
Ársreikningur 2024
Starfsemi félagsins er þríþætt, leiga íbúða, fasteignaþróun og viðhald. Meðan uppbygging er hröð getur myndast tímabundinn rekstrarafgangur sem er tilkominn vegna þess að nýbyggingar eru að hluta komnar í rekstur en kostnaður ekki að fullu kominn til gjalda.
Framleiðslukostnaður íbúða Bjargs er í mörgum tilfellum töluvert lægri en fasteignamat. Mismunur á fasteignamati og kostnaðarverði færist sem rekstrarafgangur í ársreikningi (matsbreyting). Þessi rekstrarafgangur er bundinn í eignum félagsins og hefur ekki áhrif á sjóðsstöðu þess og svigrúm.
Tilgangur þess að færa fasteignir á fasteignamati er að efnahagsreikningur gefi rétta mynd af stöðu félagsins með því að hafa gegnsæi um hlutfall skulda af raunvirði fasteigna. Þessi framsetning í ársreikningi hefur ekki áhrif á leiguverð Bjargs sem er innheimt á grundvelli rekstrarkostnaðar án hagnaðarkröfu. Samkvæmt lögum um almennar íbúðir er ekki heimilt að endurfjármagna fasteignir félagsins vegna viðhaldskostnaðar. Því er hluti leiguverðs lagður í viðhaldssjóð sem mun standa straum af viðhaldi í framtíðinni.
Samkvæmt rekstrarreikningi nam rekstrarafgangur félagsins með matsbreytingu 780 millj.kr. á árinu. Eigið fé félagsins í lok árs með matsbreytingum var jákvætt um 31.307 millj.kr. en var um 26.873 millj.kr. í byrjun árs. Stjórn félagsins leggur til að rekstrarafgangi ársins með matsbreytingu verði ráðstafað til næsta árs. Að öðru leyti vísast til ársreikningsins varðandi fjárhagsstöðu félagsins og rekstur þess á liðnu ári.
Stöðugildi hjá félaginu voru 11 og launagreiðslur félagsins námu um 163,2 millj.kr. á árinu. Stöðugildi hjá félaginu á fyrra ári voru 11 og launagreiðslur félagsins námu um 150,2 millj.kr. á árinu 2023.