Bjarg íbúðafélag er með tímabundið greiðsluúrræðætluðu að koma til móts við þá leigutaka sem lenda í greiðsluvandræðum í kjölfar atvinnumissis eða skerts atvinnuhlutfalls vegna COVID-19.

Leigutökum Bjargs er boðið að fresta greiðslu hluta leigu mánaðanna apríl-ágúst 2020 í allt að 6 mánuði. Ekki er um niðurfellingu leigu að ræða. 

Að frestunartíma loknum hefst endurgreiðsla þess hluta sem frestað var og mun verða hægt að deila greiðslum á allt að 24 mánuði. 

Veittur verður frestur á sömu upphæð og lækkun tekna leigutaka (eftir skatt) eftir að úrræði sem eru í boði hafa verið nýtt. Frestur getur að hámarki orðið 50% af mánaðarleigu.

Eingöngu leigutakar sem eru í skilum og með gilda tryggingu eða bankaábyrgð fyrir leigusamningnum geta sótt um úrræðið.

Senda skal beiðni um frestun á bjargibudafelag@bjargibudafelag.is

Minnkað starfshlutfall

Leigutaki sem verður fyrir minnkuðu starfshlutfalli og hefur fengið samþykktar greiðslur frá Vinnumálastofnun getur sótt um að fresta hluta mánaðarlegrar leigu sinnar í að hámarki 6 mánuði. Leigutaki sem fellur undir þennan hluta úrræðisins mun þá þurfa að senda beiðni á bjargibudafelag@bjargibudafelag.is, senda þarf samhliða inn neðangreind gögn:

  • Staðfestingu Vinnumálastofnunar um að umsókn umsækjanda um greiðslu vegna minnkaðs starfshlutfalls hafi verið samþykkt.

  • Gögn sem sýna fram á hver krónutölulækkun leigutaka verður vegna minnkaða starfshlutfallsins og hvenær minnkað starfshlutfall tekur gildi – t.d. með staðfestingu frá vinnuveitanda.

  • Hafi umsókn leigutaka ekki verið samþykkt hjá Vinnumálastofnun og er einungis í vinnslu þar, þarf að leggja fram staðfestingu frá Vinnumálastofnun um að umsóknin sé í vinnslu auk fylgigagna umsóknarinnar til Vinnumálastofnunar.

  • Önnur gögn sem Bjarg íbúðafélag telur nauðsynleg til að staðfesta tekuskerðingu umsækjanda.

Atvinnumissir

Leigutaki sem verður fyrir atvinnumissi og hefur fengið samþykktar greiðslur frá Vinnumálastofnun getur sótt um að fresta hluta mánaðarlegrar leigu sinnar í að hámarki 6 mánuði. Leigutaki sem fellur undir þennan hluta úrræðisins mun þá þurfa aðsenda beiðni á bjargibudafelag@bjargibudafelag.is, senda þarf samhliða inn neðangreind gögn:

  • Umsækjandi leggur fram staðfestingu Vinnumálastofnunar um að umsókn umsækjanda um greiðslu atvinnuleysisbóta hafi verið samþykkt.

  • Gögn sem sýna fram á hver krónutölulækkun leigutaka verður vegna þess að hann þiggur ekki lengur laun heldur atvinnuleysisbætur og hvenær uppsagnarfrestur sé liðinn – t.d. staðfesting frá fyrrum vinnuveitanda eða framlagning síðasta launaseðils.

  • Hafi umsókn leigutaka ekki verið samþykkt hjá Vinnumálastofnun og er einungis í vinnslu þar, þarf að leggja fram staðfestingu frá Vinnumálastofnun um að umsóknin sé í vinnslu auk fylgigagna umsóknarinnar til Vinnumálastofnunar.

  • Önnur gögn sem Bjarg íbúðafélag teljur nauðsynleg til að staðfesta tekuskerðingu umsækjanda.

Kostnaður

Bjarg íbúðafélag mun ekki innheimta neinn kostnað vegna úrræðisins, þ.m.t. einhvern umsýslukostnað. Þá munu vextir ekki verða lagðir á þá fjárhæð sem frestað er.

Komi til vanskila á endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem frestað er, eða þeirra lækkuðu leigugreiðslna sem skylt er að greiða, munu dráttarvextir og innheimtukostnaður leggjast á eftirstöðvarnar nema að samið verði um breyttan endurgreiðsluferil.

Endurgreiðsla frestaðar leigu

Að þeim tíma loknum sem greiðslufresturinn stendur yfir hækkar leigan sjálfkrafa aftur upp í upphaflegu leiguna (m.t.t. vísitölubreytinga frá undirritun upphaflega leigusamningsins). Samanlögð fjárhæð þeirra leigugreiðslna sem frestað var munu skiptast í 24 jafnar greiðslur sem skulu leggjast við mánaðarleigu næstu tvö ár.

Verði vanskil á endurgreiðslum frestaðra leigugreiðslna telst slíkt vera veruleg vanefnd á leigugreiðslum er veiti Bjargi íbúðafélagi heimild til að segja upp leigusamningi aðila.  

Skjalafrágangur

Fáist umsókn leigutaka um frestaðar leigugreiðslur samþykkt, að hluta eða fullu, verður leigutaka sendur viðauki við gildandi leigusamning. Viðaukinn verður sendur rafrænt og undirritun verður einnig rafræn.

Viðaukinn um frestun skal taka gildi þegar aðili sem tryggir leigusamninginn, t.d. Leiguvernd, Leiguskjól, banki er veiti bankaábyrgð, eða leigutaki sjálfur staðfestir heimild til að ráðstafa fyrirliggjandi tryggingu til að greiða fjárhæð greiðslufrestunarinnar.

Heimild til að afla upplýsinga

Leigutaki sem sækir um greiðslufrestun veitir Bjargi íbúðafélagi heimild til að kalla eftir upplýsingum eða staðfestingum frá Vinnumálastofnun, eða öðrum opinberum aðilum, hvenær sem er á meðan á gildistíma greiðslufrestunarinnar stendur (og eins oft og Bjarg íbúðafélag telja nauðsynlegt) um að leigutakinn sé ennþá að þiggja greiðslur vegna minnkaðs starfshlutfalls eða atvinnuleysisbætur.

Frekari spurningar  senda á bjargibudafelag@bjargibudafelag.is.